+354 421-7080 duus@duus.is

Kaffi Duus er staðsett í fallegu umhverfi við gömlu Duus húsin við smábátahöfnina í Keflavík. Frábært útsýni er yfir höfnina, Bergið og smábátahöfnina í Grófinni, sjóinn og fjöllin í fjarska. Þegar dimmir er Bergið norðan við höfnina fagurlega upplýst. Umhverfis Kaffi Duus er stór og mikil verönd þar sem gestir geta snætt á góðviðrisdögum.

Kaffi Duus hóf starfsemi sem lítið kaffihús með sæti fyrir 35 manns. Það var opnað 25. nóv. 1997 af Sigurbirni Sigurðssyni byggingarverktaka. Hann byggði það sem sumarhús og flutti á staðinn en húsið var síðan stækkað í 95 ferm. Árið 2000 bættist við 75 sæta hliðarsalur með góðu útsýni og eldhúsið var stækkað. Í janúar 2008 var húsið stækkað um helming og tveir nýir salir voru teknir í notkun. Alls getur staðurinn tekið á móti 250 manns í sæti.
Samhliða stækkun hússins fór fram stækkun á eldhúsi, kæli og frysti. Alls hefur húsið verið endurbyggt og stækkað 6 sinnum og er nú alls 700 fermetrar að flatarmáli. Kaffi Duus býður upp á góða aðstöðu fyrir þrjá mismunandi hópa á sama tíma.
Sami eigandi hefur að Duus frá upphafi og árið í ár er tuttugasta rekstrarárið.

Duus söfnin og saga þeirra Í byggingaklasanum sem myndar Duushús eru nokkur merkustu og sögulegustu mannvirki Íslands. Lokið var við elstu timburbygginguna árið 1877 en yngsta byggingin er frá árinu 1954. Duushús voru lengi verslunarmiðstöð sjávarútvegs á svæðinu. Duushús eru lista og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar í hjarta gamla bæjarins við smábátabryggjuna í Grófinni. Þar er starfrækt fjölbreytt menningarstarfsemi í gömlum verslunar- og fiskvinnsluhúsum, það elsta frá 1877. Aðalsýningarsalir safna bæjarfélagsins eru í Duushúsum. Í sal Listasafns Reykjanesbæjar eru settar upp fimm nýjar sýningar á ári, aðallega samtímalist. Í sal Byggðasafns Reykjanesbæjar er saga svæðisins tekin fyrir. Í bátasal er sýning á bátalíkanasafni Gríms Karlssonar og ýmsum sögulegum gripum frá Byggðasafninu.

Verslunar sögu Keflavíkur má rekja allt til upphafs 16. aldar. Þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll þá Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Einn þeirra dönsku kaupmanna sem stunduðu verslun í Keflavík var Peter Duus en hann og afkomendur hans stunduðu þar verslun frá árinu 1848 til 1920. Peter Duus og Ásta eiginkona hans innleiddu ýmsar nýjungar í Keflavík t.d létu þau gera stóran matjurtagarð við íbúðarhús sitt og ræktuðu þar ýmsar káltegundir. Þau ráku verslunina til ársins 1868 eða í 20 ár en þá tók sonur þeirra Hans Peter við versluninni. Hans Peter aflaði sér vinsælda meðal Suðurnesjamanna og verslunin þótti rekin af framsýni og stórhug. Árið 1900 keypti Ólafur Olavsen allar eignir Fichersverslunar.

Bryggjuhúsið er elsta húsið í Duushúsalengjunni og það merkasta. Húsið er mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls þrjár hæðir. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Bíósalurinn er byggður 1890. Hann telst einn elsti bíósalur landsins, en sagnir eru um bíósýningar rétt upp úr aldamótunum 1900, og er bíóloftið enn til staðar í salnum. Gamla búð stendur stök, beint á móti húsalengjunni. Hún var byggð árið 1870 af fyrrnefndum Hans Peter Duus og var þar m.a. rekin verslun eins og heiti hússins gefur til kynna. Skipaflotinn í Duus safn Reykjanesbæjar með bátasýningu Gríms Karlssonar í fararbroddi er sambyggt við Kaffi Duus ásamt listasal Reykjanesbæjar og minjamunum frá gömlu herstöðinni, sem eykur á fræðslu og afþreyingu fyrir gesti okkar.